Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 399  —  199. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013.



Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Meiri hluti nefndarinnar lagði hinn 16. desember sl. fram á fundi fjárlaganefndar breytingartillögur við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013. Frumvarpið var stuttu síðar afgreitt til 3. umræðu. Enda þótt minni hlutinn hafi fengið óformlegar upplýsingar um áform meiri hlutans áður en fundurinn var haldinn telur hann að fjárlaganefnd eigi að marka sér þá vinnureglu að frumvörp um fjárlög, fjáraukalög og tilheyrandi breytingartillögur séu ekki afgreidd til umræðu í þinginu fyrr en minni hlutinn hefur haft nægjanlegan tíma til yfirferðar og geti óskað eftir þeim gestum, gögnum og faglegum greiningum sem nauðsynlegar eru til að afgreiða mál með faglegum hætti.

Framhaldsskólar og grunnskólar.
    Að beiðni minni hlutans var leitað álits Ríkisendurskoðunar á fyrirætlunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að flytja ónotaðar fjárveitingar á fjárlagalið sem notaður yrði á nýju fjárlagaári. Ríkisendurskoðun staðfesti þann skilning minni hlutans að það væri ekki í samræmi við anda laga um fjárreiður ríkisins að nota fjáraukalög með þeim hætti. Því hefur meiri hlutinn dregið til baka þær hugmyndir sem í millifærslunum fólust. Liðurinn Framkvæmd nýrrar skólastefnu er því felldur niður og framlög til námskrárgerðar, framhaldsfræðslu almennt og sérstakra fræðsluverkefna bakfærð.

Fjarskiptasjóður.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2013 er ekki gert ráð fyrir breytingum á framlögum til Fjarskiptasjóðs. Við 2. umræðu um frumvarpið lagði meiri hlutinn til að þeim tekjum sem ríkissjóður hafði af útboði á tíðnisviði 4G-fjarskiptakerfisins yrði varið til greiðslu á hluta af samningi við fjarskiptafyrirtækið Farice ehf. Í fjárlögum hafði verið gert ráð fyrir að ríkissjóður greiddi kostnað við samninginn og var greiðslufyrirkomulaginu því breytt með þessum hætti. Minni hlutinn hefur beitt sér fyrir því að staðið yrði við upphaflegar áætlanir um að tekjur af sölu tíðnisviðsins yrðu notaðar til uppbyggingar á fjarskiptakerfinu innan lands, einkum til uppbyggingar á ljósleiðarakerfinu og háhraðatengingum. Með þessari breytingu fær Fjarskiptasjóður 195 m.kr. framlag til uppbyggingar kerfisins með greiðslum úr ríkissjóði eins og til stóð. Minni hlutinn telur eðlilegt að ríkissjóður greiði kostnað við þjónustusamning við Farice ehf. en tekjur af sölu á tíðnisviðum verði notaðar til uppbyggingar fjarskiptakerfisins eins og lög gera ráð fyrir.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
    Í breytingartillögum meiri hlutans eru veitt framlög að fjárhæð 35 m.kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sérstakra viðbótarframlaga og gert er ráð fyrir að sjóðurinn veiti til viðbótar sömu fjárhæð þannig að heildarframlög úr honum verði 70 m.kr. Við afgreiðslu frumvarpsins til 3. umræðu kom fram hjá minni hlutanum að mikilvægt væri að nefndin hefði afrit af þeim gögnum sem nauðsynleg væru til að unnt væri að taka upplýsta afstöðu til fjárveitingarinnar.
    Forsaga málsins er sú að 7. október 2008 gerðu bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga með sér samning um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit vegna fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Markmið samningsins var m.a. að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun, bæta eiginfjárstöðu og styðja rekstrargrundvöll sveitarfélagsins. Gerðar voru viðbætur við samninginn 17. febrúar 2009 þar sem bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar skuldbatt sig m.a. til að fylgja tilmælum eftirlitsnefndarinnar sem fram koma í aðgerðaáætlun nefndarinnar 7. janúar 2009 og m.a. var vikið að í 6. tölul. í bréfi til samgönguráðherra þann dag.
    Í bréfi Bolungarvíkurkaupstaðar til formanns fjárlaganefndar fyrir hönd nefndarinnar, dags. 29. október 2013, er farið fram á efndir samnings frá árinu 2008 og viðbótarsamnings 2009 og framlag á fjáraukalögum til lúkningar þeim. Bent er á að sú fjárhæð sem gengið var út frá að afskrifuð væri af Íbúðalánasjóði hefði verið afskrifuð að hálfu og aðkoma lánardrottna sem eftirlitsnefndin skuldbatt sig til að fylgja eftir hefði ekki skilað sér að hluta. Eftirlitsnefndin og hlutverk hennar er útlistað í 78. og 79. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 3. mgr. 78. gr. kemur fram að nefndin sé sérstakt stjórnvald sem heyri undir ráðherra. Samkvæmt þessu virðist nefndin því lægra sett stjórnvald gagnvart ráðuneytinu og því ekki sjálfstætt stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar.
    Álitamál er hvort samningar sem eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga gerir séu skuldbindandi fyrir þriðja aðila, í þessu tilviki Íbúðalánasjóð. Minni hlutinn átelur vinnubrögð meiri hlutans sem lagði breytingartillögu fram um málið á fundi 16. desember og afgreiddi á þeim sama fundi. Kalla hefði þurft gesti, svo sem eftirlitsnefndina, fulltrúa Íbúðalánasjóðs og fagráðuneyti, fyrir nefndina til að rýna undirliggjandi gögn. Minni hlutinn telur rétt að afgreiða fjárbeiðnina í fjárlögum 2014 í stað fjárlaga 2013. Heimild hefði þá verið veitt á 6. gr. fjárlaga með 70 m.kr. fjárheimild á viðkomandi fjárlagalið sem heimilt hefði verið að verja til málsins, hefði fullnægjandi athugun fjárlaganefndar á málinu leitt til þeirrar niðurstöðu.

Desemberuppbót.
    Minni hlutinn ítrekar að hann telur ótækt að atvinnuleitendur verði af desemberuppbót og flytur því breytingartillögu þess efnis að atvinnulausir fái desemberuppbót og til hennar verði varið 250 m.kr.

Alþingi, 17. desember 2013.



Oddný G. Harðardóttir,


frsm.


Brynhildur Pétursdóttir.


Bjarkey Gunnarsdóttir.